Fréttir
Fréttir af Creditinfo
Lánshæfimat
Vanskil
Greiningar

Vanskil fyrirtækja aukast

20.5.2025

Hlutfall nýskráninga fyrirtækja á vanskilaskrá hefur aukist lítillega á síðustu mánuðum á meðan hlutfall nýskráðra einstaklinga á vanskilaskrá helst sögulega lágt. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningu Creditinfo á vanskilum fyrirtækja og einstaklinga á Íslandi.

Vaxtastig hefur verið tiltölulega hátt hér á landi um nokkurt skeið en Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti bankans 14 sinnum á tímabilinu 19. maí 2021 til  23. ágúst 2023, úr 0,75% í 9,25%. Vaxtalækkunarferli Seðlabankans hófst svo 2. október 2024 þegar hann lækkaði stýrivextina í 9,0% en síðan þá hefur hann lækkað vextina þrisvar sinnum og eru þeir núna 7,75%. Stýrivaxtahækkununum var ætlað að slá á mikla og þráláta verðbólgu en 12 mánaða verðbólga fór frá því að vera 1,7%, og þar með undir 2,5%-verðbólgumarkmiði Seðlabankans, í upphafi árs 2020 í 10,2% í febrúar 2023.

Svona hátt vaxtastig ætti að öllu jöfnu að hafa neikvæð áhrif á greiðslugetu einstaklinga og fyrirtækja enda hafa hærri vextir í för með sér að verja þarf hærra hlutfalli af tekjum í vaxtagreiðslur af lánum. Með þetta að leiðarljósi skoðuðum við þróun nýskráninga á vanskilaskrá sl. 12 mánuði hjá einstaklingum og fyrirtækjum.

Þróun vanskila fyrirtækja

Myndin hér að neðan sýnir þróun nýskráninga fyrirtækja á vanskilaskrá 12 mánuðina á undan frá árinu 2019. Hlutfall nýskráninga hefur verið tiltölulega lágt í sögulegu samhengi undanfarna mánuði, eða í kringum 3%. Hlutfallið hefur þó farið hægt og bítandi hækkandi frá ágúst 2024, þegar það var 2,6%, en í maí 2025 stendur það í 3,3%. Næstu mánuðir koma svo til með að varpa skýrara ljósi á hvort þessi þróun muni halda áfram eða ekki.

Sé þróun nýskráninga skoðuð eftir atvinnugreinum má greina nokkurn mun milli atvinnugreina. Hlutfall nýskráninga er hæst (5,6%) í byggingariðnaði og mannvirkjagerð líkt og verið hefur frá síðari hluta 2021. Næsthæst er hlutfallið í ferðaþjónustu, 4,7%, en það hefur hækkað nokkuð skarpt síðasta árið. Þróunin í smásölu hefur verið í öfuga átt og var hlutfallið þar t.a.m. 4,2% í október 2024 en er núna 3,8%.

Þróun vanskila einstaklinga

Hlutfall nýskráninga einstaklinga á vanskilaskrá 12 mánuðina á undan hefur verið á bilinu 1,0% til 1,5% frá ársbyrjun 2023 en þó að jafnaði í kringum 1,3%. Hlutfallið er nú nokkuð lágt í sögulegu samhengi ef undanskilin eru COVID-árin 2021 og 2022 en þá fór hlutfallið alveg niður í tæplega 0,8% sem helgast m.a. af sértækum aðgerðum lánastofnana til stuðnings heimilum.

Af myndunum að dæma er ekki hægt að greina með óyggjandi hætti miklar breytingar á hlutfalli nýskráninga á vanskilaskrá síðastliðna mánuði – a.m.k. ekki hjá einstaklingum. Hvað fyrirtækin varðar eru mögulega blikur á lofti en þó er líklega of snemmt að segja til um hvort nýskráningum fyrirtækja komi til með að halda áfram að fjölga eða hvort um tímabundna og skammvinna aukningu sé að ræða.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Þú hefur verið skráður í fréttabréf hjá Creditinfo
Oops! Something went wrong while submitting the form.